top of page

G+H

Hér höfum við mjög einstakan kjól með sögu... já ég fékk senda þessa fallegu sögu um hvernig kjóllinn varð til og ég get ekki annað að leyft henni að fylgja hér með:


Við maðurinn minn vorum búin að ákveða að ganga í hjónaband rúmu ári áður en stóri dagurinn rann upp. Ég var búin að velta mikið fyrir mér hvernig kjól ég vildi. Ég var með einhverjar hugmyndir en samt eiginlega enga hugmynd um hvað ég vildi. Ég var búin að ganga á milli verslana, skoða allt frá hvítum blússum og krúttlegum pilsum, að samfestingum og gala kjólum. Það eina sem ég var harð ákveðin í var að kjóllinn varð að vera "ég" og hann varð að hafa fleiri tilefni til notkunar. Ég var búin að taka skjáskot af ótal myndum af kjólum, allir í bohemian stíl. Merkilegt nokk, þá voru þeir lang flestir saumaðir af Eyrúnu Birnu. Ég var búin að fara alveg í hringi með þetta og var nokkuð viss um að ég vildi ekki láta sérsauma á mig kjól - það væri algjörlega alltof mikil fyrirhöfn og lítið notagildi. Stundum er höfuðið á manni á yfirsnúningi. Það var algjörlega það sem var í gangi þarna.

Síminn minn hringir og á hinni línunni var systir mín. Á þessum tíma var hún búin að hringja í Eyrúnu og bóka á mig kjól fyrir sumarbrúðkaupa tímabilið. Að mér skilst, síðasta lausa plássið fyrir sumarið 2020. Ég fékk mömmu til að koma með mér og hitta Eyrúnu í fyrsta skipti. Þarna tók á móti okkur engill í mannsmynd. Við ræddum saman um mínar hugmyndir, sem voru eiginlega engar - að undnaskildum nokkrum gildum. Já, ég sver, nokkrum gildum. Eins og ég segi frá hér að ofan varð notagildið fyrir flíkina að vera meira en eitt skipti. Best væri þó ef eitthvað væri endurnýtt því ekki mátti samviskubitið gagnvart umhverfinu poppa upp á þessum degi. Ég lýg því ekki að á þessum tímapunkti var búið að safna saman dóti héðan og þaðan, lánað og gefins, allt fyrir þennan dag. Planið var að ekkert einnota væri notað á þessum degi. Gamlir útsaumaðir dúkar, ósamstæðar tauservíettur, gamlir messing kertastjakar, luktir, krukkur, blómavasar, niðursuðudósir... bara hvað sem er, það átti að skreyta með öllu sem væru til. Hvað um það, Eyrún greip mig á orðinu. Dróg fram dásamlega fallega blúndu sem var í raun gardína sem hafði prýtt fallegt heimili í fjöldamörg ár. Ég nefndi að ég væri opin fyrir hverju sem er í þessum kjólamálum, ég væri mikið fyrir að vera í ermalausu en ætti samt í erfiðu samband við upphandleggina á mér. Á þessum tímapunkti vissi ég að Eyrún Birna væri rétta manneskjan í þetta. Ég sagði henni bara að ráð ferðinni, finna út úr því hvað hentaði mínum líkamsvexti best og gaf henni algjörlega frjálsar hendur - að endurvinnslunni og notagildinu undanskildu.

Ég gleymi aldrei stundinni sem ég sá kjólinn í lokamátuninni og fór í hann! Ég gat ekki hætt að brosa! Vá, vá, vá! þarna var gardínan komin í nýtt hlutverk, orðin að brúðarkjól - sem er, svo því sé haldið til haga, lang þæginlegasta flíkin í fataskápnum mínum í dag, og fallegasta líka. Síður brúðarkjóll með breiðum hlírum og ágætlega opnu baki og toppur yfir. Toppurinn er úr blúndunni sem er neðst á kjólnum. Toppurinn er hnepptur í bakið með guðdómlegum perlu hnöppum. Eyrún Birna hafði lesið hugsanir mínar og tilfinningar og búið til flík sem var bara algjörlega minn karakter. Kjóllinn gerði daginn fullkominn! Bæði þæginlegur og fallegur!

Ég hef notað kjólinn aftur eftir brúðkaupið. Þó ekki með toppnum. Toppinn hef ég notað sér við buxur og pils.

Ég er ótrúlega glöð að ég hafi stokkið á gæsina þegar hún gafst. Þakklát fyrir að systir mín tók verkið í sínar hendur og bókað tímann. Samstarfið við Eyrúnu Birnu var dásamlegt í alla staði. Því lauk með faðmlagi á covid tímum. Ef þú ert að spá í bohemian kjól, ekki hugsa þig tvisvar um. Bókaðu tíma. Eyrún Birna veit nákvæmlega hvað hún er að gera.


- Guðlaug Þorsteinsdóttir -


Ljósmyndarar: StudioDís og Eygló Lilja
Comments


bottom of page